"Það hefur legið í loftinu að Höskuldur Þórhallsson og Sigmundur Davíð hafa ekki gengið í takt innan flokksins enda tókust þeir á um formannsembættið á sínum tíma. Nú er þetta orðið að opnum átökum sem lítið er reynt að fela – eins og sjá má af því að þeir Birkir Jón Jónsson og Sigmundur Davíð annars vegar og Höskuldur hins vegar hafa ekkert rætt þessi framboðsmál sín á milli og samtalið á sér stað í beinni útsendingu fjölmiðla.” Þetta hefur dagblaðið Vikudagur eftir Birgi Guðmundssyni stjórnmálafræðingi á vefsvæði sínu í dag.

Birgir bætir þar við með þessu sé markað ákveðið rof í sögu Framsóknarflokksins og sé hin nýja Framsókn með þessu að gefa frá sér ákveðin skilaboð. „ Allir formenn flokksins frá Ólafi Jóhannessyni– að Guðna Ágústssyni undanskildum – hafa annað hvort verið í framboði eða flutt sig í framboð á höfuðborgarsvæðið. Það hefur verið yfirlýsing um að flokkurinn hafi viljað sækja meira þéttbýlisfylgi. Nú bregður svo við að formaðurinn fer frá höfuðborginni og í landsbyggðarkjördæmi. Það er eðlilegt að velta fyrir sér hvaða skilaboð felast í því,“ segir Birgir.