Framsóknarflokkurinn er með 29% fylgi í nýjustu skoðanakönnun Gallup. Þetta er einu prósentustigi meira en í síðustu könnun Gallup. Á móti dregur enn úr fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin er með rétt rúmlega 12% fylgi en Sjálfstæðisflokkur tæp 22%. Þá er Björt framtíð með rúmlega 10% fylgi, VG með 7,3%, Píratar fá 7% en aðrir minna.

RÚV fjallaði um niðurstöður könnunarinnar í kvöldfréttunum klukkan sex og segir Gallup ekki hafa mælt minna fylgi við Samfylkinguna í tæp 15 ár.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar næði Framsóknarflokkurinn 22 mönnum á þing, Sjálfstæðisflokkur 16 og Samfylking 9. Þá myndi Björt framtíð ná inn 7 mönnum á þing, VG fimm og Píratar 4. Önnur framboð ná ekki manni inn miðað við niðurstöður könnunarinnar.

Könnunin var gerð dagana annan til tíunda apríl og sýnir að enn er nokkur hreyfing á fylginu frá síðustu könnun sem birt var fyrir tíu dögum.