Framsóknarflokkurinn fengi 40% atkvæða og 31 þingmann af 63 á Alþingi yrði gengið til kosninga nú, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 . Á sama tíma og fylgið eykst við Framsókn í svo til hverri könnun fer Sjálfstæðisflokkurinn í hina áttina, þ.e. fylgi við hann heldur áfram að minnka. Það mælist 17,8% í könnuninni.

Fréttablaðið segir Framsóknarflokkinn taka fylgi frá öllum flokkum. Fylgi við Samfylkinguna mælist 9,5% og VG með 5,6%, sem er það sama og Píratar fengju yrði gengið til kosninga nú. VG og Píratar næðu fjórum mönnum inn hvor miðað við niðurstöður skoðanakönnunarinnar. Þá mælist Björt framtíð með 8,3% fylgi og næði flokkurinn inn fimm þingmönnum inn á Alþingi. Aðrir flokkar eru með minna en 5% fylgi.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir í samtali við Fréttablaðið könnunina sýna að Framsóknarflokkurinn er í stórsókn og Sjálfstæðisflokkurinn í mikilli kreppu.  „Ég hef aldrei séð annað eins. Þessi þróun öll gengur lengra en maður getur trúað," segir hann. Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn mældist ríflega 22% í Þjóðarpúlsi Capacent á þriðjudag. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sendi í kjölfarið trúnaðarmönnum Sjálfstæðisflokksins bréf og sagðist telja botninum náð. Til samanburðar var fylgi flokksins 35,5% í upphafi árs.

Sveiflurnar á fylgi flokkanna mælast mun meiri í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 en í síðustu könnunum annarra könnunarfyrirtækja. Möguleg skýring á þeim mun gæti verið að kannanir Capacent og MMR eru gerðar á mun lengri tíma en könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Þær mæla því fylgið á ákveðnu tímabili meðan könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 mælir stöðuna í gær og fyrradag.