Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og fyrrverandi aðstoðarmaður viðskipta- og iðnaðarráðherra hefur ákveðið að gefa kost á sér sem formaður Framsóknarflokksins en ný forysta flokksins verður kosin á flokksþingi nú í janúar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Páll sendi frá sér rétt í þessu.

Yfirlýsingin er svohljóðandi.

„Á flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar næstkomandi verður kjörin ný forysta. Innan hans hefur mikil umræða farið fram um nauðsyn á endurnýjun í forystunni – um að nýtt fólk verði kallað til ábyrgðarstarfa.

Ég hef undanfarna daga átt samtöl við fjölmarga flokksmenn um stöðu flokksins og framtíð hans og í kjölfar þeirra ákveðið að gefa kost á mér til formennsku í flokknum.

Framtíð Framsóknarflokksins veltur á því hvort hann skynji kall kjósenda eftir breytingum í íslenskum stjórnmálum. Segja verður skilið við samtryggingu stjórnmálanna og ógagnsæ vinnubrögð. Rannsókn á efnahagshruni síðustu vikna þarf að ná aftur til þeirra ára sem bankarnir voru einkavæddir enda Framsóknarflokknum mikilvægt að allt verði upplýst í því ferli.

Meginverkefni stjórnmálanna næstu vikur og mánuði verður þó að standa vörð um heimilin í landinu. Algerlega misheppnaðar aðgerðir núverandi stjórnvalda hafa leitt til þess að Íslendingar standa frammi fyrir gríðarlega brýnum og erfiðum verkefnum. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við alþjóðlegri fjármálakreppu hafa reynst óvönduð og fremur stuðlað að hruni fjármálakerfisins en björgun þess.

Þúsundir Íslendinga verða atvinnulausar í byrjun næsta árs. Framsóknarflokkurinn þarf að leggja fram róttækar áætlanir í atvinnumálum. Nauðsynlegt er að horfa til skynsamlegrar nýtingu náttúruauðlinda til að fjölga störfum og snúa vörn í sókn.

Aukið fjármagn í rannsóknir, þróunarstarf og nýsköpun er nauðsynlegt og skilar árangri á lengri tíma. Láta þarf á það reyna með samningaumleitan og þjóðaratkvæðagreiðslu hvort Íslendingar eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu.

Ráðagerðir stjórnvalda um aðstoð við skuldsett heimili duga hvergi nærri til. Ungar fjölskyldur huga að brottflutningi úr landinu enda gefst þeim ekki kostur á að standa við skuldbindingar sínar. Fólk sem hefur fjárfest í húsnæði síðustu fimm árin, hvort sem er með verðtryggðum lánum eða erlendum myntkörfulánum, stendur frammi fyrir ókleifum múr. Það verður að ráðast gegn þessum skuldum, meðal annars með því að afskrifa hluta þeirra. Ungt vel menntað fólk verður að eygja von.

Nái ég kjöri mun ég leggja höfuðáherslu á breytt vinnubrögð í flokksstarfi og aukið lýðræði. Það verði meðal annars gert með því að auka þátttöku og vægi almennra flokksmanna í ákvarðanatöku innan flokksins.

Þannig verði öllum flokksmönnum gefinn kostur á að velja forystu flokksins, taka þátt í störfum flokksþings og kjósa um helstu stefnumál í beinni kosningu.

Með sama hætti leggi Framsóknarflokkurinn áherslu á aukið lýðræði í landinu, íbúalýðræði, styrkingu löggjafans á kostnað framkvæmdavaldsins, gegnsæja stjórnsýslu og fagleg vinnubrögð í hvívetna.“

Páll er sem fyrr segir bæjarritari í Kópavogi. Hann er 37 ára gamall, kvæntur Aðalheiði Sigursveinsdóttur og saman eiga þau tvo syni. Hann er með BA-próf í guðfræði og meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hann hefur tekið þátt í starfi Framsóknarflokksins í um 20 ár og gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og á opinberum vettvangi. Hann var varabæjarfulltrúi í Kópavogi, varaþingmaður og aðstoðarmaður ráðherra. Þá var hann formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands fyrir hönd Röskvu, samtök félagshyggjufólks.