Ríkisstjórnarflokkarnir fengju samanlagt 43,4% fylgi ef gengið yrið til þingkosninga nú, samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 23,3% atkvæða og Framsóknarflokkurinn 20,1%. Þetta er nærri átta prósentustigum minna en flokkarnir fengu í þingkosningunum í apríl síðastliðnum. Þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn 26,7% atkvæða og Framsóknarflokkurinn 24,4% atkvæða. Könnunin nú var gerð dagana 2. og 3. desember, það er eftir að tillögur um skuldaniðurfellingu voru kynntar.

Miðað við kosningarnar í vor bæta stjórnarandstöðuflokkarnir allir við sig. Björt framtíð bætir mestu við sig, fer úr 8,2% í kosningunum í 13,2% nú.

Í síðustu könnun Félagsvísindastofnun, sem gerð var í nóvember, mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 24,1% atkvæða en Framsóknarflokkurinn aðeins með 13,2%. Aðrir flokkar, að Pírötum undanskildum, hafa tapað fylgi síðan þá.