Þorsteinn Andri Haraldsson, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka, segir að á hlutabréfamarkaði megi hugsanlega merkja væntingar markaðsaðila um að líkurnar á vinstristjórn hafi minnkað.

„Það dró lítið til tíðinda á markaði á mánudaginn, nema það að gengi HB Granda hækkaði um 4,3% í heldur miklum viðskiptum. Þannig sem það blasti svolítið við okkur var að menn væru að gera sér væntingar um að Framsóknarflokkurinn yrði hryggjarstykkið í samsteypustjórn nokkurra flokka til hægri og vinstri,“ segir Þorsteinn Andri. „Þó að það sé enn mikil óvissa til staðar myndi ég túlka það þannig að markaðsaðilar væru alla vega ekki jafn smeykir við hreina vinstristjórn og þeir voru fyrir kosningar.“

HB Grandi
HB Grandi
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Á mánudaginn gengu formenn flokkanna átta á fund forseta til að ræða stöðuna sem komin er upp í stjórnmálunum áður en hann ákveður hverjum hann felur stjórnarmyndunarumboð. Flokkarnir hafa verið að ræða þrjár mögulegar stjórnarmyndanir og er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lykilmaður í myndun þeirra allra. Sérstaklega hafa átt sér stað óformlegar viðræður milli fráfarandi stjórnarandstöðuflokka (Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknar) um hugsanlegt stjórnarsamstarf frá því stuttu fyrir kosningar, en eftir að Sigurður Ingi tjáði hug sinn á Bessastöðum á mánudaginn hafa vonir um að slík stjórn gæti orðið til minnkað. Lýsti Sigurður Ingi því yfir að honum hugnaðist best „breið stjórn frá vinstri til hægri.“ Hefur hann nefnt sérstaklega mögulega stjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar, eða allt að sex flokka stjórn.

En af hverju gæti hlutabréfaverð HB Granda gefið vísbendingar um pólitískt sálarástand á markaði? HB Grandi er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og er það félag á að­allista Kauphallarinnar sem býr við mesta pólitíska áhættu, enda hefur kvótakerfið í sjávarútvegi verið bitbein í íslenskum stjórnmálum áratugum saman. Gengi bréfa HB Granda lækkaði um 3,8% í rúmlega 111 milljóna króna viðskiptum í kjölfar stjórnarslitanna í september. Þar til á mánudaginn, fyrsta viðskiptadaginn eftir kosningarnar, hafði hlutabréfaverð félagsins lækkað um rúmlega 15%, en hækkaði þann dag um 4,3% í 536 milljóna króna viðskiptum. Eins og kunnugt er hefur Framsóknarflokkurinn verið mótfallinn meiri háttar breytingum á núgildandi fiskveiðistjórnunarkerfi, en flokkar á borð við Vinstri græn og Samfylkinguna hafa kallað eftir breytingum og hækkun veiðigjalds.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .