Á fundi borgarráðs í gær lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tillögu og greinargerð þar sem lagt er til að borgarráð skipi sérstaka úttektarnefnd vegna galla á húsi Orkuveitunnar en Reykjavíkurborg á tæp 94% í Orkuveitunni.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um þá hefur komið í ljós að grípa þarf til gríðarlega umfangsmikilla aðgerða vegna lekavandamála í húsinu, sem færa má rök fyrir að sé eitt dýrasta hús landsins . Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknar, bæði á eigin vegum sem og í kosningabandalagi R-listans, leiddi sameiningu Orkuveitunnar í eitt fyrirtæki og byggingu nýrra höfuðstöðva sem stjórnarformaður félagsins.

„Þar sem ljóst er að tjónið á húsi OR að Bæjarhálsi 1 er gríðarlegt er nauðsynlegt að upplýst verði hvernig staðið var að málum eftir að leki kom upp í húsinu nokkrum árum áður en raki og mygla uppgötvaðist í september 2015,“ segir í fréttatilkynningu frá Guðfinnu Jóh. Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa flokksins.

Spyr hún hvort hagsmuna OR og eigenda OR hafi verið gætt í hvívetna þegar hvorki hafi verið talin ástæða til að skoða og meta galla í húsinu fyrr eða að meta hugsanlegan bótarétt eða fyrningu. „Þá þurfi að kanna hvort tjónið hafi verið aukið með tómlæti og eigin sök.“

Afgreiðslu tillögu borgarfulltrúans var frestað, en í henni segir m.a.:

„Sérstaklega verði skoðað hvernig brugðist var við leka sem uppgötvaðist 2004 og 2009, hvað viðgerðir hafi farið fram, hvort ástandsúttekt hafi verið gerð og orsökin fundin og hvort talið hafi verið að þær viðgerðir sem fram fóru hafi verið að fullnægjandi þannig að engar vísbendingar væru um frekari leka eða skemmdir fyrr en raki og mygla uppgötvaðist í september 2015.

Hvort skoðað hafi verið eða kröfur gerðar á þá aðila sem komu að byggingu hússins eða framleiddu eða seldu efni til byggingar hússins svo sem byggingaraðila, byggingarstjóra, aðalhönnuð, burðarþolshönnuð, tryggingarfélög, eftirlitsaðila, framleiðanda eða seljenda.

Hvort  lagaleg staða og hugsanlegur bótaréttur hafi verið kannaður vegna galla á húsinu fram til ársins 2015 m.a. með tilliti til tómlætis eða fyrningar.“