Framsóknarflokkurinn hefur skilað ársreikningi sínum fyrir árið 2009 til Ríkisendurskoðunar. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag. Reikningurinn hefur ekki enn birst á vefsvæði Ríkisendurskoðunar en samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins barst hann í vikunni.

Þar með hafa allir stjórnmálaflokkar skilað inn ársreikningi fyrir árið 2009. Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um afkomu allra flokkanna á árinu 2009, nema Framsóknarflokksins þar sem ársreikningur hafði ekki skilað sér.

Í Fréttatímanum segir Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, að ástæður fyrir slæglegum vinnubrögðum flokksins skýrist af uppbyggingu flokksins. „Það þarf að safna saman uppgjörum og upplýsingum frá um hundrað Framsóknarfélögum á öllu landinu til að ljúka gerð árskreiknings flokksins. því miður auðgnaðist ekki að ná þessum upplýsingum öllum saman fyrir tilskilin tíma, og er þar um að kenna mismunandi heftandi vandamálum á mismunandi stöðum á landinu. Vinna við undirbúning á skilum félaganna fyrir næsta ársreikning og umbótum á ferli nauðsynlegra skila frá Framsóknarfélögunum hefur þegar hafist til að svona seinkun muni ekki endurtaka sig. Ég biðst afsökunar á að skila ársreikningnum svona seint,“ segir Hrólfur i samtali við Fréttatímann.