Eigið fé Framsóknarflokksins var neikvætt tvö ári í röð, 2008 og 2009. Í árslok 2009 var eigið fé flokksins neikvætt um rúmar 118 milljónir króna auk þess sem skuldir flokksins námu rúmum 250 milljónum króna.

Þetta kemur fram útdrætti að ársreikningi Framsóknarflokksins sem nú hefur verið birtur á vef Ríkisendurskoðunar eins og lög segja til um. Viðskiptablaðið birti í lok janúar úttekt um fjármál stjórnmálaflokkanna, þ.e. allra flokka nema framsóknarflokksins sem ekki hafði skilað ársreikningi.

Tekjur Framsóknarflokksins árið 2009 námu alls um 105 milljónum króna. Þar af nam ríkisframlag tæpum 53,5 milljónum króna, framlög lögaðila um 12,9 milljónum króna og framlög einstaklinga um 14,4 milljónum króna.

Útgjöld flokksins á árinu námu tæpum 124 milljónum króna og var flokkurinn því rekinn með um 19 milljóna króna tapi árið 2009. Þá námu fjármagnsgjöld tæpum 22 milljónum króna þannig að heildartap flokksins á árinu 2009 nam tæpri 41 milljón króna.

Sem fyrr segir var eigið fé flokksins neikvætt um rúmar 118 milljónir króna í lok árs 2009. Þá hafði eigið fé flokksins verið neikvætt um 65 milljónir króna í árslok 2008. Eignir flokksins í árslok 2009 námu rúmum 134 milljónum króna, þar af voru veltufjármunir aðeins um 27,6 milljónir króna.

Eins og fram kom í fyrrnefndri úttekt Viðskiptablaðsins í lok janúar var eigið fé Vinstri hreyfingarinnar- Græns framboðs (VG) einnig neikvætt í árslok 2009. Á sama tíma námu skuldir VG tæpum 123 milljónum króna.

Enginn flokkur skuldar þó jafn mikið en Framsóknarflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn skuldaði í árslok 2009 um 78 milljónir króna en Samfylkingin um 107 milljónir króna.