Flokksþing framsóknarmanna og ný forysta flokksins er svar við kallinu um breytingar. Þetta segja margir framsóknarmenn sem Viðskiptablaðið ræddi við í dag.

Valgerður Sverrisdóttir, fráfarandi formaður, segir að í þjóðfélaginu séu miklar kröfur um breytingar. Framsóknarflokkurinn sé ekkert undanskilinn í þeim efnum.

„Framsóknarflokkurinn tekur þessi skilaboð alvarlega og bregst við með þeim hætti að kjósa sér formann sem er nýgenginn í flokkinn," segir Valgerður og bætir því við að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nýkjörinn formaður, hafi þó greinilega heillað fólk í kosningabaráttunni og því hafi niðurstaðan verið eins og hún var.

Sjálfur segir Sigmundur Davíð, þegar hann er spurður út í þessi mál, að með breytingunum hafi flokksmenn meðal annars viljað leggja til hliðar vangaveltur um það hvort mistök hafi verið gerð í fortíðinni eða ekki.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, segir að nú hafi hreinsast út ákveðinn undirróður og leiðindamórall sem verið hefði í flokknum. „Nú hreinsast það allt út þannig að ég er mjög sáttur við þetta flokksþing og flokkinn," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Birkir J. Jónsson alþingismaður var kjörinn varaformaður flokksins og Eygló Harðardóttir alþingismaður var kjörin ritari.

Lagaumhverfið var gallað

Þegar Valgerður er spurð hvort Framsóknarflokkurinn hafi ef til vill einhvern tíma á undanförnum árum, farið út af brautinni svarar hún: „Ég á ekki gott með að sjá það – en þegar ég lít til baka sé ég að það hefur ekki alltaf verið mikið gagnsæi í vinnubrögðum. Unga fólkið er að kalla eftir breytingum á því."

Hún segir enn fremur að ótrúlega margir hlutir gerist í tólf ára ríkisstjórnarsamstarfi. Þegar unnið sé hratt að þróun samfélagsins, eins og þá var gert, sé alltaf hætta á mistökum.

Hún fullyrðir til að mynda að það lagaumhverfi, sem innleitt hafi verið á vakt Framsóknarflokksins, hafi verið gallað. Vísar hún þar til lagareglna Evrópska efnahagssvæðisins. Það kerfi hafi til dæmis ekki gert ráð fyrir hruni bankanna.

Allir geti sætt sig við ályktunina um ESB

Flokksþing framsóknarmanna, sem fór fram um helgina, kaus sér ekki einasta nýja forystu heldur samþykkti einnig nýja ályktun um Evrópusambandið. Í henni segist flokkurinn styðja aðildarviðræður.

Guðni Ágústsson, sem hingað til hefur talist til ESB-andstæðinga, segir að báðir aðilar  - þ.e. þeir sem eru með og þeir sem eru á móti ESB - geti unað við ályktunina. Margir sjái að það verði aldrei friður í samfélaginu fyrr en látið verði reyna á það hvað komi út úr aðildarviðræðum.

„Stærsta málið er hins vegar að settir voru mjög sterkir fyrirvarar [við aðild að ESB]. Framsóknarmenn vilja verja auðlindir sínar, fullveldi sitt, sjávarútveg og landbúnað - þannig að ég sætti  mig alveg við þessa niðurstöðu og bjóst reyndar við henni," segir Guðni.