Úrslit alþingiskosninganna í gær liggja nú fyrir en búið er að telja öll atkvæði. Óhætt er a segja að Framsóknarflokkurinn sé sigurvegari kosninganna en flokkurinn bætir við sig tæplega 10% fylgi frá síðustu kosningum og tíu þingmönnum.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut mesta fylgi allra flokka, eða 26,7% á landsvísu og nítján kjörna þingmenn. Flokkurinn bætir þannig við sig þremur þingmönnum frá síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn hlaut 24,4% fylgi og fékk einnig nítján þingmenn kjörna, þar af einn jöfnunarþingmann.

Samfylkingin fékk 12,9% atkvæða og níu þingmenn kjörna. Það er ekki ofsögum sagt að flokkurinn hafi beðið afhroð frá síðustu kosningum, en flokkurinn tapaði nú 17% fylgi og ellefu þingmönnum. Svipaða sögu er að segja af Vinstri grænum, sem hlutu 10,9% fylgi og sjö kjörna þingmenn. Flokkurinn tapar því sjö þingmönnum frá síðustu kosningum og samanlagt tapa stjórnarflokkarnir átján þingmönnum frá síðustu kosningum.

Björt framtíð bauð fram í fyrsta skipti í gær og fékk 8,2% atkvæða og sex kjörna þingmenn. Þá buðu Píratar einnig fram í fyrsta sinn og hlutu 5,1% fylgi og þrjá þingmenn, allt jöfnunarþingmenn.