Framsóknarflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Kom þetta fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Næststærstur er Sjálfstæðisflokkurinn. Framsóknarflokkurinn mælist með 31,9% í könnuninni, sem unnin var af Capacent Gallup og MMR og bætir verulega við sig frá fyrri könnunum. Sjálfstæðisflokkurinn tapar um einu og hálfu prósentustigi og mælist með 27,5%.

Samfylkingin er þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar með 13,8% og bætir við sig um einu prósentustigi. Vinstri grænir mælast með 7,1% og Björt framtíð mælist með 9,1% og hefur tapað um þremur prósentustigum frá fyrri könnun.

Staða Framsóknarflokksins væri því mjög sterk ef niðurstaða kosninga væri í samræmi við þessa könnun. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefði yfir 42 þingmönnum að búa og einnig væri hægt að búa til 39 þingmanna meirihluta með þátttöku Framsóknarflokks, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar.