Framsóknarflokkurinn heldur áfram að styrkja stöðu sína á meðan Sjálfstæðisflokkurinn  heldur áfram að missa fylgi frá fyrri könnunum.

Þetta sýnir ný könnun MMR sem birt var í dag um fylgi stjórnmálaflokka og stuðning við ríkisstjórnina á tímabilinu 22. til 25. mars.

Framsóknarflokkurinn mælist nú stærsti stjórnmálaflokkur landsins með 29,5% fylgi, en flokkurinn mældist með 25,9% fylgi um miðjan mars. Framsókn mældist með tæplega 15% fylgi í janúar sl. og tæplega 14% fylgi í desember. Flokkurinn hefur því aukið fylgi sitt verulega síðustu mánuði.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 24,4% en Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram til þessa mælst stærsti flokkur landsins í könnunum MMR (og lengi framan af í Þjóðarpúlsi Capacent sömuleiðis). Þetta er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með frá kosningunum vorið 2009 en flokkurinn mældist með 27,2% fylgi um miðjan mars. Þá hafði fylgið sömuleiðis ekki verið lægra frá 2009. Hæst fór fylgi flokksins í 42% í könnun í desember 2009 en rétt er að hafa í huga að Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 40,6% fylgi í sumar og 37,4% í desember sl. Flokkurinn er því búinn að missa 13% fylgi frá því í desember og um 16% fylgi frá því í sumar.

Samkvæmt könnun MMR mælist Samfylkingin nú þriðji stærsti flokkurinn með 12,5% fylgi en í sambærilegri könnun MMR um miðjan mars var Björt framtíð þriðji stærsti flokkurinn. Samfylkingin fékk 29,8% fylgi í kosningunum vorið 2009 og hefur mest mælst með 21,6% fylgi (í könnunum MMR) í byrjun árs 2010. Flokkurinn mældist með 21,2% fylgi í október sl. (sem var mesta fylgi flokksins á síðasta ári skv. könnun MMR) og með 17,4% fylgi í desember sl..

Bjartri framtíð fatast heldur flugið frá fyrri könnunum og flokkurinn mælist nú með 12% fylgi. Flokkurinn mældist með 15,2% fylgi um miðjan mars en var með 18% fylgi í febrúar sl., sem þá var mesta fylgi  sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum MMR.

Fylgi Vinstri grænna heldur áfram að lækka og flokkurinn mælist nú með 8,7% fygli en var með 9,6% fylgi um miðjan mars. Flokkurinn fékk 21,7% fylgi í kosningunum vorið 2009. Mest hefur flokkurinn mælst með 26% fylgi vorið 2010 en síðan þá hefur fylgi flokksins leitað niður á við í könnunum MMR. Vinstri grænir mældust með um 11,2% fylgi í desember sl.

Aðrir flokkar mælast undir 5%, en stærstu smáflokkanna svokölluðu mælast Píratar með 3,9% fylgi. Hægri grænir mælast með 2,5% fylgi.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 28,7% og eykst lítillega frá könnun MMR um miðjan mars þegar ríkisstjórnin mældist með 26,5% stuðning.

Um 82% þátttakenda í könnuninni gaf upp afstöðu til flokka, aðrir kváðust óákveðnir (7,7%), myndu skila auðu (6,3%), myndu ekki kjósa (1,5%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (2,8%).

Fylgi stjórnmálaflokkanna skv. MMR könnun 26.03.13
Fylgi stjórnmálaflokkanna skv. MMR könnun 26.03.13
© vb.is (vb.is)