Stuðningur við Framsóknarflokkinn er rétt yfir 17% ef marka má könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka. Samkvæmt því er flokkurinn vel yfir kjörfylgi sínu sem er 12%. Fylgið á kjörtímabilinu hefur hins vegar verið í kringum átta til tíu prósent.

Fylgi Samfylkingarinnar er samkvæmt könnun MMR komið niður í 16,7% og Sjálfstæðisflokkurinn er með 24,3% fylgi.

Vinstri grænir eru, ef marka má könnunina, stærsti stjórnmálaflokkurinn með 28,5% fylgi.

Fylgi Frjálslynda flokksins er 3% og fylgi Íslandshreyfingarinnar 2,2%.

Könnunin var framkvæmd dagana 20. til 21. janúar en flokksþing framsóknarmanna þar sem ný forysta var kjörin var fram helgina á undan eða 16. til 18. janúar.

Mikil hreyfing á fylgi flokkanna

Samkvæmt þessu virðist fylgi flokkanna vera á mjög mikilli hreyfingu. Kannanir Capacent Gallups, fyrir jól, sýndu til dæmis að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði dalað umtalsvert frá kosningum, en kjörfylgið er 37%.

Fylgi Samfylkingarinnar hafði fyrir jól ekki dalað eins mikið og Sjálfstæðisflokks - en ef marka má þessa könnun er að verða breyting á því. Kjörfylgið er 27%.

Vinstri grænir hafa hins vegar verið í uppsveiflu síðustu mánuði, ef marka má skoðanakannanir, en fyrir jól náði hann því að verða stærsti flokkurinn. Kjörfylgið er 14%.

Stærð úrtaks kemur ekki fram

MMR er skammstöfun fyrir Markaðs - og miðlarannsóknir ehf. Umrædd könnun fór fram 20. til 21. janúar sl., eins og áður sagði, og í úrtakinu eru einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára. Þeir voru valdir handhófskennt úr þjóðskrá.

Könnunin fór fram í gegnum síma og net og var svarfjöldi 1.749 einstaklingar.

Ekki kemur fram í gögnum MMR hve stórt upphaflegt úrtak var.