Framsóknar menn eru ekki allir sammála því að náttúrupassi sé farsælasta leiðin til að innheimta gjald í ferðaþjónustu fyrir afnot af íslenskri náttúru. Þetta segir Sigrún Magnúsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins í samtali við RÚV.

Hún gerir þó fyrirvara við að þingflokknum hefur ekki verið kynnt innihald frumvarps þess efnis sem var samþykkt í ríkisstjórn í gær. Málið var engu að síður rætt á þingflokksfundi Framsóknar í gær og þar voru viðraðar ólíkar skoðanir um hugmyndina.

Sterkar skoðanir á málinu

„Þetta er náttúrulega þannig mál að menn eru með sterkar skoðanir, bæði með og á móti. Það verður að segjast eins og er að það er ekki alveg ein lína hjá okkur Framsóknarmönnum varðandi náttúrupassann, en ég vil samt ítreka að við erum ekki búin að fá kynninguna, og áður en hún hefur farið fram finnst mér ekki rétt að vera að tjá sig mikið um það,“ segir Sigrún í samtali við RÚV.

Jafnt gjald á innlenda sem erlenda ferðamenn

Samkvæmt frumvarpi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur er gert ráð fyrir því að allir sem hyggist leggja leið sína á helstu ferðamannastaði muni þurfa að greiða 1.500 krónur fyrir náttúrupassa sem gildi í þrjú ár í senn. Verður gjaldið lagt jafnt á innlenda sem erlenda ferðamenn vegna ákvæða EES-samningsins. Hugmyndir eru uppi um að innheimta verði rafræn og að innlendir aðilar geti greitt í gegnum skattframtal sitt.

Einkaaðilar verða ekki skyldaðir til að taka þátt í náttúrupassanum og gætu því sjálfir séð um innheimtu að ferðamannastöðum í einkaeigu.