*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 19. febrúar 2009 16:58

Framsóknarmenn eru að verða bjartsýnni á að stjórnlagaþing nái fram að ganga

Höfðu um tíma miklar áhyggjur af málinu

Ritstjórn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á von á því að það skýrist á morgun hvernig farið verði með tillögur framsóknarmanna um stjórnlagaþing. Hann segir að framsóknarmenn hafi um tíma haft miklar áhyggjur af því að málið næði ekki fram að ganga. Þeir séu orðnir aðeins bjartsýnni nú.

Eitt af skilyrðum þess að framsóknarmenn myndu verja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna falli var að efnt yrði til stjórnlagaþings. Ekki hefur þó endanlega verið gengið frá málinu á milli stjórnarflokkanna. Forystumenn flokkanna funduðu síðdegis í dag og áfram verður fundað á morgun.

Sigmundur Davíð segir í samtali við Viðskiptablaðið að framsóknarmönnum hafi þótt málið ganga heldur hægt innan stjórnarflokkanna. Af því hafi þeir haft miklar áhyggjur. „Hættan er sú að ef þetta verður ekki klárað núna þá verði þetta aldrei framkvæmt," segir hann um stjórnlagaþingið.

Þegar hann er spurður hvað framsóknarmenn muni gera verði þetta mál ekki afgreitt og samþykkt innan Samfylkingar og Vinstri grænna svarar hann:  „Þá þyrfti þingflokkurinn að ráða ráðum sínum."

Kosið verði á stjórnlagaþing samhliða þingkosningum

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, mælti fyrir frumvarpi um stjórnlagaþing á Alþing í vikunni en allur þingflokkurinn stendur að því. Samkvæmt frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir 63 fulltrúum á þingið sem kosnir yrðu í almennum kosningum.

Framsóknarmenn eru viljugir til að breyta útfærslunni á stjórnlagaþinginu og segir Siv til dæmis koma til greina að fækka fulltrúum þess. Sigmundur Davíð kveðst í samtali við Viðskiptablaðið helst hallast að því að best væri að kjósa fulltrúa á stjórnlagaþing samhliða alþingiskosningunum 25. apríl.

Birkir J. Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir mikilvægt að ganga frá málinu hið fyrsta „því tíminn bókstaflega hleypur frá okkur," segir hann.

Hann kveðst bjartsýnn á að málið verði afgreitt í vor þrátt fyrir að sjálfstæðismenn séu ekki tilbúnir til þess að veita því brautargengi.