Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, sem haldið var í gærkvöldi, samþykkti ályktun um „að hefja skuli viðræður við Evrópusambandið um aðild að sambandinu og upptöku evru."

Kjördæmisþing flokksins í Norðausturkjördæmi samþykkti ályktun sama efnis nýlega en Guðni Ágústsson, formaður flokksins, hefur verið annarrar skoðunar.

í ályktuninni er beint gagnrýni að ríkisstjórn Íslands og ráðamönnum þjóðarinnar „fyrir ómarkviss vinnubrögð og ósönn og óheppileg ummæli á ögurstundu í efnahagslífi þjóðarinnar. Á tímum sem þessum skiptir öllu máli að stjórnvöld komi fram af festu, ábyrgð og hreinskilni, þannig að almenningur og umheimurinn öðlist trú á því að þjóðin vinni sig út úr þeim erfiðleikum sem blasa við."