Vigdís situr í hagræðingahópi ríkisstjórnarinnar sem skoðar hvernig hægt sé að hagræða í rekstri ríkisins. Hópurinn skilar tillögum sínum seinni partinn í ágúst.

Í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun sagði Vigdís Hauksdóttir að fyrst og fremst sé verið að skoða fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Áhersla verði lögð á aðfinna lausnir til framtíðar. Þegar hún var spurð sérstaklega um fyrirhuguð jarðgöng sagði hún að ekki yrði hætt við Vaðlaheiðargöng, enda sé sú framkvæmd hafin. Hún vildi hins vegar ekki tjá sig um afdrif Norðfjarðarganga.

„Að fara byggja hér nýjan steinsteypukubb upp á 60-80 milljarða á meðan starfsfólk er að ganga út af Landspítalanum - það er ekki nokkuð einasta vit í því. Við Framsóknarmenn höfum talað skýrt; þjóðin hefur ekki efni á nýjum spítala í dag, það eru alveg hreinar línur," sagði Vigdís þegar hún var spurð út í byggingu nýs Landspítala.