88,3 prósent Íslendinga verða með jólatré í ár, samkvæmt könnun MMR . Hlutfall gervijólatrjáa hefur aukist undanfarin ár og nú sögðust 55,9 prósent aðspurðra ætla að vera með gervijólatré. 32,4 prósent verða með lifandi jólatré.

Fólk á höfuðborgarsvæðinu er líklegra til að segjast ætla að vera með lifandi jólatré en íbúar á landsbyggðinni. 36,4 prósent þeirra verða með lifandi jólatré samanborið við 26% íbúa á landsbyggðinni.

Þá hækkar hlutfall þeirra sem verða með lifandi jólatré með hærri tekjum heimilisins. Í tekjuhæsta hópnum, heimili með milljón á mánuði eða meira, ætlar helmingur að vera með lifandi jólatré. Í tveimur tekjulægstu hópunum, 250-399 þúsund og undir 250 þúsund, er þetta hlutfall 16,8% og 13,3%.

Þeir sem styðja Pírata eru líklegri til að vera ekki með jólatré en aðrir. 28,9% þeirra segjast ekki ætla að vera með jólatré. Stuðningsmenn Framsóknarflokksins eru líklegastir til að vera með jólatré, en aðeins 3,9% þeirra ætla ekki að vera með jólatré. Þeir eru líka líklegastir til að ætla að vera með gervijólatré, en 62,7% framsóknarmanna ætla að vera með gervijólatré. 60,4% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins ætla að vera með gervitré en hlutfallið er lægst með Pírata, 40,3%, og stuðningsfólks Samfylkingarinnar, 45,4%. Samfylkingarfólk er jafnframt líklegast til að vera með lifandi tré, en 45,4% segjast ætla að vera með lifandi tré.

Heildarfjöldi svarenda í könnuninni var 1097 einstaklingar.