Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði á Alþingi í dag að framsóknarmenn hefðu ítrekað, bæði í miðstjórn og á flokksþingi, ályktað um nauðsyn þess að gera breytingar á yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Frá þeirri stefnu myndu þeir ekki hvika. Alþingi þyrfti þó að fara vel yfir frumvarpið um breytingar á lögum um Seðlabankann.

Þingmenn hafa fjallað um Seðlabankafrumvarpið í allan morgun og sagði Birkir J. Jónsson, Framsóknarflokki, þegar röðin kom að honum að í frumvarpinu væru þröng skilyrði um hæfniskröfur nýs Seðlabankastjóra. Þar er kveðið á um að Seðlabankastjóri skuli hafa lokið meistaraprófi í hagfræði.

„Á að banna að maður með rekstrarhagfræðimenntun eða í fjármálaverkfræði geti orðið Seðlabankastjóri? Mér finnst að það séu dálítið þröng skilyrði er varða hæfniskröfurnar," sagði Birkir Jón og bætti því við að þetta mál þyrfti að skoða betur í efnahags- og skattanefnd þingsins, en þangað fer frumvarpið til umfjöllunar, að lokinni fyrstu umræðu.

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, gerði einnig athugasemdir við þetta ákvæði frumvarpsins. Önnur menntun en meistaragráða í hagfræði kæmi vel til greina, sagði hann.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði þegar hann vék að þessu ákvæði í sínu máli að einn Seðlabankastjóranna þriggja uppfyllti það þá þegar, þ.e. hann væri með meistaragráðu í hagfræði.