Þingflokkur framsóknarmanna hefur sent Seðlabanki Íslands bréf og óskað eftir svörum, með hagfræðilegum rökum, við sex spurningum um efnahagslífið. Undir bréfið ritar Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins.

Bréfið er svohljóðandi:

Svo sem kveðið var á um í frumvarpi til laga um brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, með síðari breytingu, o.fl., og meðfylgjandi greinargerð, er Seðlabanki Íslands reiðubúinn að láta aðilum vinnumarkaðarins og stjórnmálaflokkum, sem fulltrúa eiga á Alþingi, í té upplýsingar og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir, eftir því sem um semst.

Þingflokkur framsóknarmanna leitar því til Seðlabanka Íslands með eftirtaldar spurningar og óskar eftir að bankinn komi með svör við þeim, ásamt hagfræðilegum rökstuðningi og greinargerð, eigi síðar en 20. mars nk.

1. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að breytingar á fjármálamörkuðum hér heima fyrir og erlendis síðustu vikur hafi á tekjuöflun ríkisins?

2. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að nýloknir kjarasamningar hafi á þróun efnahagslífsins og tekjuöflun ríkisins?

3. Hvaða áhrif telur Seðlabankinn að nýkynntar tillögur ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjaramálum hafi á þróun efnahagslífsins, ríkisútgjöld og tekjuöflun ríkisins?

4. Hvað telur Seðlabankinn mikið svigrúm til frekari útgjaldaaukningar hjá ríkissjóði í tengslum við þá kjarasamninga sem ólokið er?

5. Hvort telur Seðlabankinn að fjárlög ársins 2008 hafi haft jákvæð eða neikvæð áhrif á það ójafnvægi sem við búum við í efnahagsmálum nú um stundir?

6. Telur Seðlabankinn að ríkisstjórn Íslands hafi gengið nógu langt í þá átt að draga úr þenslu í samfélaginu?