Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins hyggjast leggja fram á Alþingi þingmál um að hvalveiðar í atvinnuskyni verði leyfðar í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.

Gert er ráð fyrir því að þingmálið verði lagt fram á Alþingi á allra næstu dögum.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra og formaður VG, hefur lýst því yfir að hann sé ósáttur við reglugerð forvera síns í sjávarútvegsráðuneytinu, Einars K. Guðfinnssonar, um að leyfa veiðar á hrefnu og langreyði næstu fimm árin.

Steingrímur hefur sagt að þeirri ákvörðun verði hugsanlega snúið við. Verði fyrrgreint þingmál hins vegar samþykkt á Alþingi yrði sá viðsnúningur í óþökk meirihluta þingsins.

Samtals eru þingmenn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokksins 35.

(Uppfært kl. 16.12). Þingsályktunartillaga um þetta efni er nú komin fram á Alþingi og má finna hana hér. Alls 36 þingmenn rita undir málið, en auk þingmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins er þar líka Jón Magnússon, þingmaður utan flokka.