Framsóknarmenn ætla að afgreiða ályktun sína um Evrópusambandsmál nú á föstudaginn en þá hefst flokksþing þeirra, þar sem ný forysta flokksins, verður kjörin.

Í drögum að ályktun um Evrópumál er lagt til að Íslendingar hefji aðildarviðræður við ESB.

Alls eiga 962 fulltrúar rétt til setu á þinginu af tæplega 12.000 félagsmönnum í flokknum, að því er fram kemur í tilkynningu frá flokknum.

Þingfulltrúarnir tilheyra 83 félögum innan flokksins frá öllu landinu. Flestir fulltrúar eru úr Suðurkjördæmi eða 252, þá úr Reykjavík eða 232. Þá kemur Norðvesturkjördæmi með 184, Norðausturkjördæmi með 156 og loks Suðvesturkjördæmi með 138.