Fjórir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur. Flutningsmenn eru Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Þorsteinn Sæmundsson.

Samkvæmt tillögunni er lagt til að skipaður verði starfshópur til að endurskoða reglurnar og er gert ráð fyrir því hann skili tillögum fyrir árslok.

„Neytendavitund almennings er almennt ábótavant þótt hún fari vaxandi á sumum sviðum,"segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Er það mat þingmannanna að bagalegt sé að verslanir setji sér mismunandi reglur sem valdi því að neytendur eigi oft erfitt með að finna út hvaða reglur gildi um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur.

„Þetta á sérstaklega við í jólaversluninni," segir í greinargerðinni. „Afar mismunandi er hversu langan tíma verslanir veita neytendum tækifæri til að skipta vörum sem þeir hafa fengið í jólagjöf, í sumum tilfellum er aðeins um örfáa daga að ræða. Neytendastofu, Neytendasamtökunum og fleirum berast á þessum tíma árs iðulega nokkur fjöldi kvartana vegna þessa skamma frests og er því ljóst að þetta kemur sér illa fyrir marga neytendur, m.a. íbúa landsbyggðarinnar sem hugsanlega komast ekki í tæka tíð í verslun á höfuðborgarsvæðinu til að skipta gjöfum og geta því setið uppi með nokkur eintök af sama hlutnum.

Þá gilda einnig mismunandi reglur um gildistíma gjafabréfa og inneignarnótna. Sé ekki sérstaklega samið um gildistíma á gjafabréfi eða inneignarnótu gildir hin almenna regla um fyrningu kröfuréttinda, þ.e. gjafabréfið eða inneignarnótan gildir þá í fjögur ár frá útgáfu.

Margar verslanir og þjónustuaðilar veita hins vegar mun skemmri frest og er þriggja til sex mánaða frestur algengur. Hafa þarf í huga að þegar neytandi festir kaup á gjafabréfi er hann að leggja fé inn í rekstur þess fyrirtækis sem hann verslar við og alls kostar óeðlilegt og raunar ósanngjarnt að svo skammur tími sé veittur til að til að taka út vöru fyrir inneignina. Leiða má líkur að því að neytendur verði árlega af nokkuð háum fjárhæðum vegna þessa."

Lesa má greinargerðina í heild hér .