„Ég og fleiri erum andsnúin því að skrá hluta af Landsvirkjun á hlutabréfamarkað og viljum fyrirbyggja klúður á borð við Magma-málið og einkavæðinguna á HS Orku á sínum tíma. En þessi umræða þarf að fara fram. Við viljum opna hana og hvetja til þess að löggjafinn stofni nefnd sem hleypi fleirum að umræðunni,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Hann ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins hefur laft fram þingályktunartillögu á Alþingi sem kveður á um að lagt verði mat á kosti og galla þess að selja lífeyrissjóðunum allt að 30% hlut í Landsvirkjun og lagning á raforkusæstreng til Evrópu. Þá er lagt til að við úthlutun virkjanaleyfa til stærri virkjana en 5 til 10 MW verði háð því að tveir þriðju hlutar viðkomandi orkufyrirtækis verði í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Þingmennirnir sem koma að tillögunni auk Sigurðar Inga eru þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, Siv Friðleifsdóttir og Ásmundur Einar Daðason.

Sigurður segir í samtali við netútgáfu Viðskiptablaðsins öll þau mál sem fram komi í tillögunni hafa komið upp öðru hverju. Mikilvægt sé að opna umræðuna frekar og koma í veg fyrir að ákvaðanir um mikilvæg mál verði teknar á einum stað.

Ríki og lífeyrissjóðir eigi Landsvirkjun

„Ég er sjálfur efins um að kostir þess að leggja sæstreng séu fleiri en gallarnir og vil tryggja að eignahlutir í Landsvirkjun verði ekki framseljanlegir heldur verði litið á þá sem langtímafjárfestingu svo arðurinn renni að hluta til í lífeyrissjóðina. En það er mikilvægt að þessi mál, kostir þeirra og gallar, verði skoðuð af fleirum,“ segir hann.