Framsýn – stéttarfélag Þingeyinga sendi í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem meint bann Hvals hf. við aðild starfsmanna sinna að Verkalýðsfélagi Akraness er fordæmt.

Í yfirlýsingunni er þess krafist að fyrirtækið láti nú þegar af afskiptunum, og þau sögð skýrt brot á 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Því næst er það rakið að Verkalýðsfélag Akraness hafi unnið dómsmál gegn Hval hf., gefið í skyn að afskiptin séu viðbrögð forstjórans, Kristjáns Loftssonar, við því, og þau sögð „vægast sagt barnaleg”.

Loks er því fagnað að Verkalýðsfélag Akraness ætli að stefna Hval hf., og það áréttað að enginn sé „svo stór að hann sé hafinn yfir lög og reglur á Íslandi”.

Forsaga málsins er sú að 20. júní síðastliðinn birti Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, færslu á facebook þar sem hann sagði Hval hf. hafa meinað starfsmönnum sínum aðild að VLFA í kjölfar sigurs VLFA á Hval hf. í áðurnefndu dómsmáli.

Síðan þá hafa ASÍ og fleiri gagnrýnt aðgerðirnar, og í síðustu viku upplýsti VLFA svo að það hygðist stefna Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals hf., fyrir félagsdóm.