Framtakssjóður Íslands vill ekki staðfesta það að sjóðurinn eigi í viðræðum við eigendur Íslandsbanka um hugsanleg kaup á bankanum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins á sjóðurinn þó í slíkum viðræðum ásamt fleiri fjárfestum, þar á meðal lífeyrissjóðum og eigendum MP banka, einkum Skúla Mogensen.

Í svari Framtakssjóðsins segir þó að hann hafi frá stofnun árið 2009 komið að endurreisn og uppbyggingu fjölmargra lykilfyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Sjóðurinn hafi lengi horft á fjármálageirann þar sem ljóst sé að núverandi eignarhald þjóni ekki langtímahagsmunum samfélagsins og atvinnulífsins.

„Framtíðarskipan og eignarhald fjármálakerfisins er mikið hagsmunamál allra landsmanna og mikilvægt að úr þeirri stöðu verði leyst og Framtakssjóðurinn hefur hreyft við hugmyndum að því að leysa úr núverandi stöðu. Þær þreifingar eru skammt á veg komnar og óvarlegt að tjá sig meira um það að svo stöddu,“ segir í skriflegu svari sjóðsins.