Framtakssjóður Íslands mun áfram vera áhrifafjárfestir í upplýsingafyrirtækinu Advania eftir tveggja milljarða króna hlutafjáraukningu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

VB.is greindi frá því í gær að Framtakssjóðurinn hefði ákveðið að selja erlendum fjárfestum hluta af núverandi eign sinni í Advania með því að framselja forgangsrétt sinn til áætlaðrar hlutafjáraukningar. Sjóðurinn á nú 71% hlut í fyrirtækinu.

Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi FSÍ segir í samtali við Morgunblaðið í dag, að sjóðurinn leitist við að fara ekki undir 20% í þeim félögum sem hann á hlut í. Þannig hafi sjóðurinn að markmiði að vera áhrifafjárfestir í félögunum. Með þessum samningi hafi það markmið náðst.