Framtakssjóður Íslands seldi í dag 10% hlut í Icelandair Group. Söluandvirði hlutarins var um 2,7 milljarðar króna.

Framtakssjóðurinn tilkynnti í morgun að hann hefði falið Verðbréfamiðlun Íslandsbanka hf. að hafa umsjón með sölu á 10% hlutafjár í Icelandair Group en sjóðurinn átti fyrir 29,01% hlut í félaginu. Hlutaféð var boðið til sölu til fagfjárfesta með áskriftarfyrirkomulagi. Lágmarksverð er kr. 5,42 og frestur til að skila inn tilboðum var til kl.  18.00 í dag.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar nú laust fyrir miðnætti kemur fram að Framtakssjóðurinn hafi gengið frá sölu á hlutnum. Sem fyrr segir fóru viðskiptin fram á genginu 5,42 en alls voru seldir 500.000.000 hluta. Það gerir heildarviðskipti upp á rúma 2,7 milljarða króna.

Við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins á síðasta ári eignuðust Framtakssjóður Íslands og lífeyrissjóðir töluverðan hlut í félaginu eftir að hafa lagt því til þrjá milljarða króna. Íslandsbanki, sem jafnframt var viðskiptabanki félagsins, eignaðist þá um 25% hlut í félaginu, eftir að hafa m.a. breytt skuldum í hlutafé.

Hlutabréfaverð Icelandair Group hefur hækkað verulega, eða yfir 130%, frá hlutafjárútboði félagsins í lok síðasta árs. Fyrir síðustu jól fór fram almennt hlutafjárútboð Icelandair Group á genginu 2,5 en gengi bréfa við lok markaða á föstudag var 5,42.

Í kjölfar fyrrnefndra viðskipta hefur orðið sú breyting á hlutahafahóp Icelandair Group að Framtakssjóðurinn er ekki lengur stærsti hluthafi félagins. Framtakssjóðurinn á eftir viðskiptin 19,01% hlut í félaginu en Íslandsbanki átti fyrir 20,59% hlut. Þá á Lífeyrissjóður verslunarmanna 12,07% hlut en aðrir hluthafar minna.