Framtakssjóður Íslands hefur selt eignir fyrir 47 milljarða króna á árinu. Hann hefur fengið 23,5 milljarða króna í vasann. Afgangurinn, 24,5 milljarðar króna, eru skuldir fyrirtækjanna sem kaupendur hafa tekið yfir, samkvæmt upplýsingum Framtakssjóðsins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Framtakssjóðurinn seldi eignir Icelandic Group í Frakklandi og Þýskalandi í sumar og í Bandaríkjunum og Asíu nú í haust fyrir samtals 41 milljarð króna. Samkvæmt upplýsingum frá Framtakssjóðnum tóku kaupendur yfir skuldir Icelandic Group upp á 21 milljarð króna.

Þá seldi Framtakssjóðurinn í haust 10% hlut af eign sinni í Icelandair Group fyrir rúma 2,7 milljarða króna.

Síðasta eignin sem Framtakssjóðurinn seldi var Húsasmiðjan sem tilkynnt var um í vikunni að danska byggingavörukeðjan Bygma hafi keypt. Kaupverð nemur 3,3 milljörðum króna. Þar af eru 2,5 milljarðar af skuldum sem Bygma tekur yfir og fær Framtakssjóðurinn því 800 milljónir króna í vasann.