Hagnaður af rekstri Framtakssjóðs Íslands nam 436 milljónum króna að því er kemur fram í tilkynningu. Á árinu voru greiddir 14 milljarðar til eigenda sjóðsins vegna sölu eignarhluta sjóðsins og hafa tæplega 32 milljarðar verið greiddir til eigenda. Áætlað gangvirði eigna Framtakssjóðsins var metið á a.m.k. 49,4 milljarðar króna í árslok 2014.

Þær breytingar urðu á eignasafni sjóðsins á árinu að seldur var 7% hlutur í Icelandair Group og ríflega 20% hlutur í N1 og hefur sjóðurinn þá selt hlut sinn í þessum félögum að fullu. Framtakssjóður Íslands seldi einnig 8% hlut í Advania samhliða hlutafjáraukningu félagsins. Í lok ársins var skrifað undir samning um sölu eigna Promens hf. til alþjóðlega plastframleiðandans RPC.

„Árið 2014 reyndist afar gott í rekstri Framtakssjóðsins,“ segir Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður sjóðsins í tilkynningu. „Aðkoma sjóðsins sem virkur eigandi í fyrirtækjum hefur skilað eigendum hans verulegri arðsemi. Sala Promens var eignasala og því ekki færð í bækur FSÍ að svo stöddu. Heimild sjóðsins til nýfjárfestinga lauk 28. febrúar síðastliðinn, en sjóðurinn mun áfram vinna að því að hámarka virði þeirra fyrirtækja sem eru í eignasafni hans og getur stutt við núverandi eignir með hlutafjáraukningu ef á þarf að halda.“