Framtakssjóður Íslands (FSÍ) hagnaðist um 1,5 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2012 eftir því sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag.. Sjóðurinn metur virði eigna sinna á 47,1 milljarð króna og eigið fé hans í lok júní nam 32,3 milljörðum króna.

Virði eigna FSÍ var því metið um 15 milljörðum króna meira en þær eignir voru keyptar á. Allur rekstrarhagnaður FSÍ stafar af hækkun á markaðsvirði 19 prósenta eignarhlutar í Icelandair á árinu. Stærsti einstaki eigandi FSÍ er Landsbankinn með 27,6 prósenta hlut en aðrir eigendur hans eru 16 lífeyrissjóðir og VÍS.

Sjóðurinn hagnaðist um 2,3 milljarða króna á árinu 2011 og var þorri þess hagnaðar vegna sölu á tíu prósenta hlut í Icelandair í nóvember á því ári á 2,7 milljarða króna. Hluturinn hafði þá ávaxtast um 120 prósent frá því hann var keyptur. Hópurinn sem keypti hlutinn var að mestu sömu lífeyrissjóðirnir og eiga í FSÍ. Eftir söluna átti FSÍ áfram 19 prósenta hlut í Icelandair.

Eignir FSÍ eru nú metnar á 47 milljarða króna. Brynjólfur Bjarnason, framkvæmdastjóri sjóðsins segir það 15 milljörðum krónum meira en kaupverð þeirra. Hann hefur einnig mikla trú á öðrum eignum sjóðsins. "Framtakssjóðurinn á nú 45 prósent í N1 og við bindum miklar vonir við að sú fjárfesting reynist hagkvæm fyrir sjóðinn. Unnið er að krafti að skráningu Vodafone á hlutabréfamarkað, en það verður fyrsta skráning félags í eigu sjóðsins í kauphöll."