Framtakssjóður Íslands (FSÍ) hefur skrifað undir samning um kaup á um 60% hlut í samheitalyfjafyrirtækinu Invent Farma. Kaupverðið er trúnaðarmál, að því er segir í tilkynningu frá sjóðnum. Fyrirtækjaráðgjöf Straums var ráðgjafi FSÍ  í viðskiptunum, en kaupsamningur er undirritaður með fyrirvara um niðurstöðu spænskra samkeppnisyfirvalda. Niðurstaðan mun liggja fyrir á næstu vikum. Fjallað er ítarlega um kaupin á Invent Farma í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Þar segir m.a. að kaupverðið nemi um 60 milljónum evra, um 10 milljarða króna.

Í tilkynningunni segir að Invent Farma hafi verið í góðum rekstri og erlendir sjóðir og lyfjafyrirtæki sýnt áhuga á að kaupa félagið. Seljendur eru innlendir og erlendir fjárfestar, en um 85% hlutafjár var í eigu innlendra fjárfesta fyrir viðskiptin. Silfurberg ehf., í eigu Friðriks Steins Kristjánssonar, stofnanda Invent Farma og Omega Farma, verður áfram hluthafi í félaginu. Hann á 31,9% hlut og nemur verðmæti eignarhlutarins miðað við kaupverðið á bilinu tæplega 4,8 til 5,1 milljarðs króna. Friðrik er stærsti hluthafi félagsins.

Eiga eignir upp á 15 milljarða

Þá segir í tilkynningunni að rekstur Invent Farma hafi gengið vel á undanförnum árum. Velta félagsins nam tæpum 84 milljónum evra í fyrra og var rekstrarhagnaður upp á tæplega 21 milljón evra. Framleiðsla félagsins skiptist í samheitalyfjaframleiðslu og framleiðslu á virkum lyfjaefnum. Félagið markaðssetur og selur samheitalyf undir eigin vörumerkjum á Spáni, en selur lyf og virk lyfjaefni í heildsölu til fyrirtækja á öðrum mörkuðum. Félagið setur að meðaltali átta ný lyf á markað á ári, en áætlað er að 45 ný lyf komi frá fyrirtækinu á næstu fimm árum. Lykilstjórnendur félagsins munu starfa áfram hjá félaginu. Spánn er stærsti markaður félagsins fyrir samheitalyf en Japan og Bandaríkin í virkum lyfjaefnum. Eignir félagsins nema 93 milljónum evra, um 15 milljarða króna, og er eigið fé 28 milljónir evra.

Lesa má nánar um Invent Farma í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .