Hagnaður af starfsemi Framtakssjóðs Íslands nam 6,1 milljarði króna í fyrra, samanborið við 2,3 milljarða árið 2011. Eignir sjóðsins jukust um 1,4 milljarða á árinu og námu 29,6 milljörðum um síðustu áramót. Eigið fé sjóðsins var 29,5 milljarðar og eiginfjárhlutfall hans því 99,6%.

Þær breytingar urðu á eignasafni sjóðsins á árinu 2012 að Plastprent var selt, sem og 7% hlutur í Icelandair og 60% hlutur í Vodafone (Fjarskipti hf.) samhliða skráningu félagsins í Kauphöll Íslands. Eftir þessi viðskipti á Framtakssjóðurinn 12% í Icelandair og 19,7% í Vodafone.

Þá jók Framtakssjóðurinn hlut sinn í N1 og á nú 45% hlut í félaginu. Einnig tók sjóðurinn þátt í hlutafjáraukningu Vodafone á árinu 2012 fyrir skráningu félagsins. Alls hefur sjóðurinn fjárfest í átta félögum frá stofnun en sex eru í núverandi eignasafni. Það eru: Advania, Icelandair, Icelandic sem skipt hefur verið upp í Icelandic Group og IG Investments, N1, Promens og Vodafone.

Andvirði innleystra eigna var ráðstafað til eigenda. Annars vegar með arðgreiðslu og hins vegar með lækkun hlutafjár. Alls voru um níu milljarðar króna greiddir til hluthafa Framtakssjóðsins og hefur sjóðurinn greitt 11,7 milljarða til hluthafa sinna frá stofnun.

Í tilkynningu er haft eftir Þorkeli Sigurlaugssyni, stjórnarformanni sjóðsins, að árið hafi verið afar hagfellt fyrir Framtakssjóðinn. Eignasafn sjóðsins sé mjög gott og færa megi rök fyrir því að fjárhagsstaða sjóðsins sé enn sterkari en bókfært eigið fé gefi til kynna. Metið virði þeirra eignarhluta sem fjárfest hefur verið í sé um 46,7 milljarðar, en bókfært verð sömu eigna um 29 milljarðar króna. Þessi munur endurspegli þann árangur sem náðst hafi í fjárfestingum sjóðsins.