Eigendur Framtakssjóðs Íslands hafa fengið greiddan rúmlega þriðjung til baka af þeim fjármunum sem þeir hafa lagt í sjóðinn. Í desember fengu hluthafar níu milljarða og fyrir árið 2011 voru greiddir 2,7 milljarðar. Alls hafa um 32 milljarðar verið settir í sjóðinn. Söluandvirði eigna sem hafa verið seldar nemur samtals ríflega 40 milljörðum. Eftirstandandi eignir voru um mitt síðasta ár metnar á 47,1 milljarð í bókum FSÍ. Hluti þeirra eigna hefur þó verið seldur síðan þá, meðal annars 60% hlutur í Vodafone fyrir 6,3 milljarða.

Miðað við matsvirði eigna og söluandvirði þeirra eigna sem þegar hafa verið seldar er ávöxtun sjóðsins talin í tugum og jafnvel hundruðum prósenta. FSÍ var stofnaður árið 2009 af sextán lífeyrissjóðum. Við kaup FSÍ á Vestia, eignarhaldsfélagi Landsbankans, eignaðist Landsbankinn tæplega 28% í FSÍ.

Brynjólfur Bjarnason, framkvæmdastjóri FSÍ, vildi ekki veita Viðskiptablaðinu viðtal vegna málsins.

Ítarlega var fjallað um Framtakssjóðinn í Viðskiptablaðinu 17. janúar 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.