Framtakssjóður Íslands hefur ákveðið að halda viðræðum áfram við evrópska fjárfestingarsjóðinn Triton um aðkomu Triton að eignarhaldi og rekstri Icelandic Group. Aðilar gera ráð fyrir að niðurstöður viðræðna liggi fyrir í lok janúar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Framtakssjóði Íslands og birt er á heimasíðu sjóðsins. Segir að gert sé ráð fyrir að markaðs- og sölukerfið, sem þjóni íslenskum framleiðendum, verði áfram alfarið í eigu Íslendinga en að erlenda verksmiðjustarfsemin verði að meirihluta í eigu Tritons. „Stefnt er að samstarfi milli þessara tveggja rekstareininga í framtíðinni til að ná því  sameiginlegu markmiði að þjóna viðskiptavinum þeirra sem allra best. Aðilar gera ráð fyrir að niðurstöður viðræðna liggi fyrir í lok janúar,“ segir í yfirlýsingunni.

Nokkuð hefur verið fjallað um söluferlið á Icelandic Group á síðustu vikum og aðrir en Triton lýst yfir áhuga á að kaupa félagið. Hafa þeir aðilar gagnrýnt Framtakssjóð Íslands fyrir að ræða eingöngu við Triton.

Eitt þeirra félaga sem lýst hafa áhuga á að koma að söluferlinu er Hig Liner Foods í Kanada. Í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn kom einnig fram að Ellert Vigfússon, fyrrverandi forstjóri Icelandic USA & ASIA, sem fer fyrir hópi fjárfesta ásamt breska fjárfestingarsjóðnum Better Capital, hefði viljað bjóða í IG. Þeir spyrja sig af hverju söluferlið á Icelandic Group hafi verið á huldu þangað til upp komst að viðræður stæðu yfir við Triton.