Framtakssjóður Íslands (FSÍ) bíður nú samþykkis Samkeppniseftirlitsins við kaupum sjóðsins á Vestiu, eignarhaldsfélagi Landsbankans. Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir að málið sé í vinnslu og reynt sé að flýta því ferli eins og kostur er.

Í byrjun desember var tilkynnt um að áreiðanleikakönnun á félaginu sé lokið og að gengið hafi verið frá kaupunum, með fyrirvara um samþykki eftirlitsins.

Kaupverð FSÍ á Vestiu lækkaði úr 19,5 milljörðum króna í 15,5 milljarða. Lækkunin er meðal annars vegna þess að Landsbankinn mun halda eftir 19% hlut í Icelandic Group. Önnur félög innan Vestiu eru Teymi, Húsasmiðjan og Plastprent.