„Við erum ekki í neinum viðræðum við Finnboga Baldvinsson um kaup á Icelandic," segir Ágúst Einarsson stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, í samtali við Viðskiptablaðið.

Það sé því rangt sem fram kom á fréttavefnum IntraFish í dag að Finnbogi, sem er forstjóri Icelandic, væri í samstarfi við fjárfestingasjóð um hugsanleg kaup á félaginu sem Framtakssjóðurinn tók nýlega formlega yfir.

Greint var frá málinu á Vb.is fyrr í dag.

„Við viljum gjarnan selja hluta af þessu fyrirtæki og erum í viðræðum við norrænan fjárfestingasjóð," upplýsir Ágúst og á þar við félagið Triton, sem Finnbogi var spyrtur við í frétt IntraFish. Triton sé stór norrænn fjárfestingasjóður sem lífeyrissjóðir og samtök opinberra starfsmanna eigi meðal annarra aðild að. Finnbogi hafi ekkert með Triton að gera.

Ágúst segist ekki geta tjáð sig um gang málsins þar sem viðræður standi yfir og erfitt að fjalla um eitthvað sem ekki er orðið og enginn veit hvernig verður.

Gert tortryggilegt

Frétt IntraFish vakti nokkra athygli í dag og töldu tveir viðmælendur Viðskiptablaðsins framsetninguna hafa það að markmiði að gera ferlið tortryggilegt vegna skyldleika Finnboga Baldvinssonar við framkvæmdastjóra Framtakssjóðsins, Finnboga Jónssonar. Sú framsetning hefði hins vegar ekki verið rétt.