Forsvarsmenn kanadíska fisksölufyrirtækisins High Liner Foods hafa sýnt áhuga á að kaupa eignir Icelandic Group sem eru utan Íslands. Kanadíska fyrirtækið er afar ósátt með að fá ekki að bjóða í Icelandic Group sem er í eigu Framtakssjóðs Íslands.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Segir að forsvarsmenn kanadíska félagsins hafi ítrekað sent Finnboga Jónssyni, framkvæmdastjóra Framtakssjóðsins, erindi vegna málsins. Félagið sé tilbúið að greiða um 340 milljónir evra, jafnvirði um 53,4 milljarða króna, fyrir allar eigur Icelandic utan Íslands. Það sé þó háð áreiðanleikakönnun á Icelandic Group.

Fjallað var um söluferlið á Icelandic Group í Viðskiptablaðinu þann 22. desember sl. og sagt frá viðræðum á milli Framtakssjóðsins og fjárfestingasjóðsins Triton. Í frétt Fréttablaðsins í dag er haft eftir Finnboga Jónssyni að ekki verði rætt við aðra á meðan þær viðræður standi yfir.

Viðræður fram í janúar

Í samtali við Viðskiptablaðið var Finnbogi spurður að því hvers vegna Icelandic sé ekki sett í opnara söluferli. Hann sagði að það hafi legið fyrir frá í september að FSÍ vildi fá meðfjárfesti með sér í Icelandic. „Þessi heimur hugsanlegra kaupenda er ekki stór og ég tel að flestir hafi látið vita af sér sem hafa áhuga.“ Sjóðurinn hafi ákveðið að láta reyna á frekari viðræður við Triton sem sé mjög öflugur sjóður í eigu norrænna og alþjóðlegra fagfárfesta. Hvort þessar viðræður endi með samningum eigi eftir að koma í ljós en FSÍ hafi ákveðið að gefa sér tíma fram í janúar til að láta reyna á það. „Við erum ekki í viðræðum um að selja félagið í heilu lagi og erum þannig í raun líka að velja okkur samstarfsaðila.“