Framtaldar eignir heimilanna námu tæplega 2.000 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 15,4% frá fyrra ári. Fasteignir eru rúmlega 70% af eignum og verðmæti þeirra hafði aukist um 16,4% milli ára en eigendum fasteigna fjölgaði um 837. Skuldir heimilanna námu alls um 760 milljörðum króna í árslok 2004 og höfðu þær vaxið um 15,2% frá fyrra ári. Skuldir vegna íbúðarkaupa jukust heldur minna, eða 12,6%, og námu 508 milljörðum króna. Til samanburðar er framtalið verðmæti fasteigna í eigu einstaklinga 1.364 milljarðar.

Hlutfall íbúðarskulda af fasteignamati íbúðarhúsnæðis lækkar því lítillega milli ára, en hlutfall heildarskulda á móti heildareignum stendur hins vegar nánast í stað.