Airbus hefur tilkynnt að félagið muni framfylgja dómi frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) þess efnis að niðurgreiðsla Evrópusambandsins teljist ólögmæt. Félagið hefur náð sátt við frönsk og spænsk stjórnvöld um að draga til baka eins konar rannsóknarstyrk landanna tveggja.

Téður styrkur hefur leitt til þess að Bandaríkin hafa lagt tolla á vörur Evrópusambandsins, meðal annars franskt vín. Frá þessu er greint á vef Financial Times.

Deilur milli Boeing og Airbus hafa staðið yfir í um sextán ár. Þar hefur Evrópusambandið stutt framleiðslu Airbus, meðal annars í formi niðurgreiðslna og tolla á framleiðslu Boeing. Bandaríkin hafa svarað með sama móti með aðstoð til Boeing en flugvélaframleiðendurnir tveir eru með markaðsráðandi stöðu.

„Eftir 16 ár af málaferli við Alþjóðaviðskiptastofnunina, er þetta síðasta skrefið til að stöðva deilurnar og fjarlægir alla réttlætingu Bandaríkjanna fyrir sínum tollum,“ er haft eftir Airbus í fréttatilkynningu félagsins.

Enn fremur er sagt að ef Bandaríkin afnemi ekki niðurgreiðslur sínar og aflétti tolla muni Evrópusambandið neyðast til þess að setja fram refsiaðgerðir, í formi tolla.