Stjórnendur þýsk-bandaríska bifreiðaframleiðandans DaimlerChrysler munu hugsanlega ákveða framtíð Chrysler-hluta fyrirtækisins í næstu viku. Þýska blaðið Wirtschaftswoche fullyrðir að þeir muni funda með hugsanlegum kaupendum að Chrysler í næstu viku en ef að sölu verður mun fyrirtækið þó halda tíu til tuttugu prósenta eignarhlut. Hins vegar er talið ólíklegt að Chrysler verði selt til einkafjárfestingasjóðs, eins og orðrómur hefur verið um, sökum þess að slík viðskipti gætu skaðað ímynd fyrir Mercedes í Bandaríkjunum og skapað óánægju meðal verkalýðsfélaga.