Arion banki mun taka ákvörðun um framtíð verslunarveldisins Haga á allra næstu dögum. Bankinn gaf sér frest til að taka afstöðu til tilboðs Gaums, erlendra fjárfesta og stjórnenda Haga um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins fram til um miðjan janúar 2010.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ekki standi til að lengja þennan frest. Því verði tilkynnt um ákvörðunina öðru hvoru megin við helgi en stjórnarfundur í Arion banka er áformaður á mánudag.

Gaumur er í eigu Jóhannesar Jónssonar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og annarra fjölskyldumeðlima þeirra. Hagar eiga m.a. Bónus, Hagkaup og 10-11. 1998 ehf., móðurfélag Haga, skuldar Arion banka tæpa 50 milljarða króna.

Talið er að lánið hafi verið fært yfir í Arion banka úr gamla Kaupþingi á um þriðjung af þeirri upphæð. Arion banki hefur haldið því fram að samkvæmt tilboðinu komi ekki til neinna afskrifta á bókfærðum skuldum 1998 ehf.