„Þær aðstæður sem eru uppi núna eru auðvitað mjög krefjandi. Bæði Spron og aðrir sparisjóðir eru að búa sig undir það umhverfi sem við horfumst í augu við og reyna að átta okkur á því hvernig við leysum þessi mál til framtíðar,“ segir Guðmundur Hauksson, forstjóri Spron, í samtali við Viðskiptablaðið.

Landslagið á íslenskum fjármálamarkaði hefur heldur betur tekið stakkaskiptum á síðustu tveimur vikum. Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig það mun líta út eftir nokkra mánuði og mun það fara mjög eftir hvernig málin þróast á næstu dögum og vikum. Ljóst er að öll fjármálafyrirtæki landsins standa frammi fyrir gífurlega krefjandi aðstæðum sem stjórnendum hefði væntanlega ekki órað fyrir að kæmu upp.

Agnar Hansson, forstjóri Icebank, er meðal þeirra sem hefur vakið máls á stöðu sparisjóðanna í þeim erfiðleikum sem nú ríða yfir og eru vangaveltur uppi um það hvernig stjórnvöld geta komið að stuðningi við sparisjóðina. Staða sparisjóðanna er erfið en á annan hátt en viðskiptabankanna. „Sparisjóðirnir eru minni og nær eingöngu að fást við svæðisbundin verkefni. Það er því mun minna mál fyrir stjórnvöld að styðja við bakið á þeim en stóru bönkunum,“ segir einn viðmælanda Viðskiptablaðsins sem er vel kunnugur sparisjóðunum en vildi ekki láta nafn síns getið.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .