Framtíð AirAsia, stærsta lággjaldaflugfélag Asíu, er í „mikilli óvissu“, samkvæmt tilkynningu endurskoðunarfyrirtækisins EY til Kuala Lumpur Kauphallarinnar í gærkvöldi. BBC segir frá .

Hlutabréf flugfélagsins hafa fallið um meira en 17% í dag eftir að viðskipti með bréfin voru tímabundið stöðvuð fyrr í morgun. Gengi bréfanna hefur lækkað um 59% á árinu.

Í tilkynningu EY, segir að að skuldir AirAsia í árslok 2019 hafi verið um 1,84 milljarða malasískra ringgit eða um 60 milljarða íslenskra króna, umfram eignir. Fjárhagsstaða flugfélagsins hefur versnað töluvert síðan þá vegna ferðatakmarkana og kyrrsetninga flugvéla sökum heimsfaraldursins.

Asíska flugfélagið tapaði 804 milljónum ringgit, eða 26 milljörðum króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri sem félagið gaf frá sér á mánudaginn, sem er jafnframt versti fjórðungur í sögu félagsins.