David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því yfir fyrr í dag að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu muni fara fram þann 23. júní næstkomandi.

Nú þegar hafa nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn Cameron sagst munu berjast fyrir útgöngu Bretlands úr ESB í aðdraganda kosninganna, en það eru þau Michael Gove, John Whittingdale, Priti Patel, Theresa Villiers, Chris Grayling og Ian Duncan Smith. Cameron mun berjast fyrir áframhaldandi veru Bretlands í sambandinu og Theresa May innanríkisráðherra mun gera slíkt hið sama. Er talið að stuðningur May skipti Cameron miklu máli, en óvissa var um afstöðu hennar til spurningarinnar þar til hún tók af skarið í vikunni.

Síðustu kannanir sem gerðar hafa verið meðal Breskra kjósenda sýna að mjótt er á mununum milli þeirra sem vilja ganga úr ESB og þeirra sem vilja vera áfram í sambandinu. Samkvæmt nýjustu könnuninni, sem greint var frá í blaðinu Express í dag, eru 36% Breta fylgjandi útgöngu og 34% þeirra vilja vera áfram í ESB. 23% hafa ekki gert upp hug sinn og sjö prósent sögðust ekki munu kjósa.