Grísk stjórnvöld þurfa að skila fyrir morgundaginn tillögum að umbótum og hagræðingum í ríkisrekstri, en skilyrði fyrir fjögurra mánaða framlengingu neyðarláns EBS, AGS og evrópska seðlabankans er að þessir stærstu lánadrottnar Grikklands samþykki tillögurnar.

Samkvæmt fréttum BBC og Marketwatch er gert ráð fyrir því að tillögurnar muni snúa að umbótum í skattkerfinu og ákveðnu aðhaldi í embættismannakerfinu. Þá eigi að herða eftirlit með skattaundanskoti. Hins vegar muni tillögurnar ekki gera ráð fyrir ákveðnum markmiðum varðandi afkomu gríska ríkissjóðsins.

Búist er við því að fjármálaráðherrar ríkja evrusvæðisins ræði tillögur Grikkja á morgun. Um 60% skulda gríska ríkissjóðsins eru við stöðugleikasjóð Evrópusambandsins og vegna sérstaks björgunarláns. Um 10% skuldanna eru við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og 6% við evrópska seðlabankann.

Fallist fjármálaráðherrar evruríkjanna á tillögur Grikkja verður neyðarlánið framlengt og grískum stjórnvöldum gefst þá svigrúm til að finna aðrar leiðir út úr fjárhagsvanda gríska ríkisins. Ef fjármálaráðherrarnir hafna tillögunum og ef of langt er á milli deiluaðila gæti samkomulagið fallið saman.