*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 12. maí 2020 19:53

Framtíð Icelandair skiptir höfuðmáli

Framkvæmdastjóri SAF segir að ef ekki náist farsæl lausn í viðræðum um Icelandair tefjist efnahagsleg uppbygging um 1 til 2 ár.

Höskuldur Marselíusarson
Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Þröstur Njálsson

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að nú geti ferðaþjónustufyrirtæki farið að gera áætlanir og verja þær bókanir sem enn eru í kerfum þeirra eftir tilkynningu stjórnvalda í dag um hvernig hátta skuli opnun landsins á ný.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í dag hyggjast stjórnvöld setja upp skimun fyrir ferðamenn á Keflavíkurflugvelli sem og taka við ferðamönnum með vottorð um sýnatöku erlendis fjórum dögum fyrir komu til landsins, án þess að skylda þá í sóttkví frá og með 15. júní næstkomandi.

Að sögn Jóhannesar Þórs sé einstaklega mikilvægt fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu að hafa dagsetningu sem þau geti bent viðskiptavinum sínum á, sem og þau skilyrði sem þeir þurfi að uppfylla til að koma til landsins.

Verðum að hafa flugfélag til að njóta opnunar landsins

Jafnframt leggur Jóhannes Þór áherslu á að til þess að íslensk ferðaþjónusta geti notið góðs að því að landið verði opnað að nýju eftir um mánuð að þá verði enn starfandi hér flugfélag. Mikið hefur verið fjallað um framtíð Icelandair í dag sem veltur á því að góð niðurstaða náist i kjaraviðræðum við flugáhafnir.

„Hver niðurstaðan verður í viðræðum um framtíð Icelandair mun skipta höfuðmáli í því hvernig ferðaþjónustan á Íslandi geti nýtt sér þetta sumar og komandi haust, því það er alveg ljóst að ef það tekst ekki að ganga frá því á farsælan máta þá mun efnahagslegri uppbyggingu hér seinka um að minnsta kosti eitt til tvö ár,“ segir Jóhannes Þór sem segir fréttir dagsins tilefni til bjartsýni.

„Við verðum samt að átta okkur á því að það sem kemur inn í sumar verður aldrei af þeim skala að það komi í staðinn fyrir það sem við höfum tapað, en það er ákaflega mikilvægt að nýta tækifærin sem bjóðast og verja þær bókanir sem þegar eru til staðar í kerfinu og ekki hafa verið afbókaðar, núna seinni part sumars.“

Flóknara að opna landið en loka

Jóhannes Þór segir ljóst að góður undirbúningur sé að baki tilkynningu stjórnvalda í dag og hann telji að hægt verði, í áframhaldandi samráði við ferðaþjónustuna og fleiri aðila að finna leiðir til að opna landið á sama tíma og ítrasta öryggis sé gætt.

„Við erum að sjá að í svona aðstæðum getur verið enn flóknara að opna landið á ný en að loka. Í ítarlegu plaggi frá stjórnvöldum er verið að horfa til þess hvaða aðgerða og hvers konar aðstæður þurfi að setja upp í flugstöðinni til að tryggja fjarlægð og aðskilnað milli hópa sem komi frá mismunandi svæðum enda mismikil hætta á smiti eftir því,“ segir Jóhannes.

„Hópar sem eru til dæmis að koma hingað til að vinna, til að mynda kvikmyndagerðarhópar, eða aðrir sem falla undir það sem kallað hefur verið sóttkví B, eða ferðamannasóttkví, þarf þá að halda aðskildum frá öðrum ferðamönnum í flugstöðinni. Þar hjálpar auðvitað að fjöldi ferðamanna er og verður í bráð ekkert í líkingu við það sem við höfum átt að venjast. Það á að vera hægt að setja skír skilyrði sem fyrirtæki og hópar verði að uppfylla um að þeir komist í eins litla snertingu við heimamenn og almenning og mögulegt sé.“

Jóhannes Þór segir að þó enn séu töluverð útfærsluatriði eftir sé mikilvægt að loks sé komin fram áætlun inn í framtíðina.

„Ferðamenn afbóka gjarnan með fjögurra til sex vikna, og upp í átta vikna fyrirvara, þannig að enn eru til dæmis töluverður fjöldi af bókunum í kerfum ferðaþjónustufyrirtækja í ágúst og september og eitthvað minna í júlí. Við þurfum að verja þær með því að setja upp kerfi sem gerir fólki mögulegt að koma og nýta sér bókanir sínar, bæði gistingu, flug og annað.“