Hluthafafundur Icelandair Group hefst klukkan 16 á Hótel Hilton Reykjavík Nordica . Á fundinum verður að heimild stjórnar Icelandair til útgáfu á allt að 30 milljarða nýrra hluta í félaginu gildi til 1. september næstkomandi. Ennfremur að greiða megi fyrir bréfin með skuldajöfnun eða á annan hátt en með lausafé. Nánari útfærsla greiðslu- og útboðsskilmála verður í höndum stjórnar.

Hyggst félagið sækja sér allt að 30 milljarða íslenskra króna með þessum hætti. Verði heimildin fullnýtt þynnist eignarhlutur núverandi hluthafa niður í 15,3%, en í tillögunni felst að þeir afsali sér forkaupsrétti á nýútgefnu bréfunum.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafði gefið út að brýnt væri að ná klára kjarasamninga við flugstéttir fyrir hluthafafundinn. Samið hefur verið við flugmenn og flugvirkja en samningaviðræður við flugfreyjur sigldu í strand á miðvikudaginn. Hvaða afleiðingar það mun hafa kemur í ljós á fundinum í dag. Félagsmenn í Flug­freyju­fé­lagi Íslands mættu til fundar í morgun til að fara yfir stöðu mála í kjaraviðræðunum. Formlegur samningafundur félagsins við Icelandair hefur hins vegar ekki verið boðaður þegar þetta er skrifað.

Gengi hlutabréfa í Icelandair stendur nú í 1,6. Hefur gengið hríðfallið á síðustu mánuðum vegna heimsfaraldursins. Gengi bréfanna í upphafi árs var í kringum 7,5 krónur á hlut. Bréfin náðu hámarki í 38,20 krónum á hlut í apríl 2015.

Stærsti eigandi Icelandair Group miðað við hluthafalista frá fimmtudeginum 14. maí er bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Par Capital Management með 12,5% hlut en hann kom inn í hluthafahóp félagsins eftir hlutafjáraukningu fyrir um ári síðan.

Næst stærstu hluthafar Icelandair eru svo Lífeyrissjóður verslunarmanna með 11,8% hlut, Gildi lífeyrissjóður með 7,2% hlut, Birta lífeyrissjóður með 7,1% auk þess sem A og B deildir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fara með samtals 8,3% hlut. Af 20 stærstu hluthöfum félagsins fara íslenskir lífeyrissjóðir samtals með um 43,6% hlut í félaginu.

Þessu til viðbótar far svo tveir hlutabréfasjóðir og einn verðbréfasjóður í rekstri hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka, með samtals 12,3% hlut auk þess sem einn sjóður í rekstri Landsbréfa fer með 2,1% hlut. Verðbréfasjóðir í rekstri dótturfélaga bankanna fara því með um 14,4% hlut í félaginu en þess má geta að að fyrir utan Par Capital Management eru einungis lífeyris- og verðbréfasjóðir meðal tíu stærstu hluthafa félagsins.

20 stærstu hluthafarnir:

  1. Par Investment Partners L.P.               12,50%
  2. Lífeyrissjóður verslunarmanna          11,81%
  3. Gildi - lífeyrissjóður                                7,24%
  4. Birta lífeyrissjóður                                  7,07%
  5. LSR A-deild Engjate                             6,24%
  6. Stefnir - ÍS 15                                         5,40%
  7. Stefnir - ÍS 5                                           5,16%
  8. Frjálsi lífeyrissjóðurinn                        2,84%
  9. Landsbréf - Úrvalsbréf                        2,15%
  10. LSR B-deild Engjate                           2,01%
  11. Brú Lífeyrissjóður                                1,77%
  12. Sólvöllur ehf.                                        1,70%
  13. Stefnir - Samval                                  1,69%
  14. Almenni lífeyrissjóðurinn                  1,53%
  15. Einstaklingur                                       1,37%
  16. Stapi lífeyrissjóður                             1,36%
  17. Vænting ehf.                                       1,32%
  18. Nautica ehf                                         1,15%
  19. Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda       0,89%
  20. Festa - lífeyrissjóður                        0,85%