Fjöldi ferðamanna er sá mælikvarði sem lengst af hefur verði nýttur til að mæla árangur í ferðaþjónustu. Þó er sá hængur á að fjöldi ferðamanna er ekki mælikvarði á arðsemi innan greinarinnar, dreifingu ferðamanna um landið eða tekjur ríkisins af ferðaþjónustu.

Það má oft heyra aðila innan ferðaþjónustunnar tala um mikilvægi þess að fjölga ferðamönnum og það er í raun hið opinbera markmið hennar. Hið óopinbera markmið er þó einnig að fá ferðamenn til að verja meira fjármagni hér á landi. Í fullkomnum heimi myndu fleiri ferðamenn verja meira fjármagni hér á landi þegar fram í sækir.

Greiningardeild Arion banka birt í lok október nokkuð sláandi tölur um neyslu ferðamanna hér á landi. Þar kemur fram að eyðsla ferðamanna hér á landi, í evrum talið, hefur minnkað verulega á síðustu árum, eða um 67% frá árinu 2005. Árið 2010 vörðu útlendingar að meðaltali um 30 þús.kr. á dag í ferðalögum sínum hér á landi, í samanburði við 50 þús.kr. árið 2005.

Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni ef eyðslan fer enn minnkandi með árunum. Þó skal hafa í huga að þetta er í takt við þróun erlendis. Hérna stangast þó á ólík sjónarmið því þeir eru til innan ferðaþjónustunnar sem líta þannig á að þeir ferðamenn sem hingað koma séu til lengri tíma mikil auðlind og e.t.v. betri en nokkur auglýsing. Sé upplifun þeirra af landinu góð munu þeir vilja koma aftur auk þess sem þeir munu segja öðrum frá upplifun sinni.

Það er óhætt að slá því föstu að meginþorri ferðamanna verji alltaf einhverju fjármagni í ferðalög sín hér, hvers eðlis sem þau eru. Til þess er nú leikurinn gerður þó svo að upphæðirnar séu eðli málsins samkvæmt mismiklar. En þetta er eitt af þeim málum sem munu væntanlega liggja á borði ferðaþjónustunnar um árabil.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, í öðrum hluta af umfjöllun Viðskiptablaðsins um hina ýmsu framtíðarmöguleika sem við okkur blasa, er fjallað nánar um ferðaþjónustuna og vaxtarmöguleikana þar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.